Í síðustu viku fékk 3. og 4. bekkur góða heimsókn frá Herði slökkviliðsstjóra. Hann fræddi krakkana um eldvarnir og viðbrögð við eldi. Hann sýndi þeim meðal annars myndband með slökkviálfunum Loga og Glóð en þau eru eldklárir aðstoðarmenn slökkviliðsins. Hörður afhenti nemendum þrautahefti, buff, endurskinsmerki ásamt fræðsluefni sem gott er fyrir fjölskyldur að skoða saman heima. Nemendurnir voru mjög áhugasamir og við þökkum Herði fyrir mjög góða og fræðandi heimsókn.
Nemendur og starfsfólk skólans tóku þátt í hugleiðsludeginum 9. okt. og höfðum við 7 mínútna hugleiðslu í salnum saman. Hugleiðsludagurinn hefur það markmið að veita börnum tækifæra til að læra meira um hugleiðslu og æfa sig í henni. Hugleiðsla er kærkomin aðferð við að lægja öldur hugans, auka sjálfsmildi, finna hjartamiðun og komast í innri kyrrð.
Dagana 4. sept - 2. okt tókum við þátt í verkefninu Göngum í skólann. Allir nemendur voru hvattir til að ganga eða nota annan virkan ferðamáta í skólann þessa daga. Nemendur í skólabíl tóku einnig þátt en skólabíllinn stoppaði nokkrum sinnum við gatnamótin og nemendur gengu göngustíginn í skólann. Fyrsta föstudag verkefnisins hvöttum við alla til að vera vel sýnileg og vera í appelsínugulum fötum. Það heppnaðist vel og gaman að sjá hvað margir tóku þátt. Innan verkefnisins vorum við einnig með Ólympíuhlaupið þar sem nemendur skólans hlupu og gengu samtals 237 km.
Föstudaginn 20. september fóru nemendur í 3. -6. bekk niður í Þingeyjarskóla til að taka þátt í sagnasmiðju með rithöfundunum Sverri Norland og Kristínu Rögnu Gunnarsdóttur. Viðburðurinn var á vegum verkefnisins List fyrir alla.