Glæsilegur árangur í First Lego League keppninni

Nokkrir nemendur í 7.-10. bekk fóru til Reykjavíkur 8. nóvember og sýndu frábæran árangur í First Lego League keppninni. Liðið, Jóhannes´s Minions, keppti í vélmennakappleik á stóra sviðinu þar sem þau voru búin að forrita og byggja þjark úr legokubbum til að leysa ákveðnar þrautir. Þau stóðu sig mjög vel, voru til fyrirmyndar og gaman að sjá hvað gengur vel þegar þau leggjast öll á eitt.

Þau náðu svo glæsilegu 2. sæti í nýsköpunarverkefninu en verkefnið þeirra þeirra vakti mikla athygli. Þau hönnuðu vélmenni sem greinir lit og áferð jarðvegs, sem var bæði snjallt og hagnýtt. Dómarar voru mjög ánægðir með hugmyndina þeirra og höfðu áhyggjur af vinnu sinni í framtíðinni ef hugmyndin yrði að veruleika. Hugmyndina fengu þau eftir samtal við Ernu Jóhannesdóttur mannabeinafræðing í London og seinna samtal við Hildi Gestsdóttur fornleifafræðing á Hofstöðum í Mývatnssveit sem kom með góðar ábendingar um bætingar á vélmenninu.

Nemendurnir unnu saman í allt haust að þessu og sýndu eljusemi og ákveðni. Þetta er frábær sigur fyrir skólann okkar og sýnir hvað nemendur okkar eru hæfileikaríkir og geta allt sem þau ætla sér. Til hamingju með þennan framúrskarandi árangur!