Um skólann

Saga skólans

Starfsemi skólans frá stofnun hans og helstu atriði í þróun skólans frá upphafi

Fyrr á öldum mun það hafa tíðkast á ýmsum „betri bæjum“ í sveitinni að heimiliskennari væri fenginn um stundarsakir til að segja börnum og unglingum til, auk hinnar almennu kristindómsfræðslu sem þá var aðallærdómurinn. Á fundi sem haldinn var í nýstofnuðu bindindisfélagi árið 1874 var samþykkt að stofna sérstakt félag „Menntunarfélag Mývetninga“ (síðar kallað Menntafélagið) til að hlúa að menntun og framförum ungmenna í hreppnum. Áhugi var mikill því 90 manns gengu strax í félagið eða hétu því stuðningi. Félagið stóð fyrir skólahaldi í fimm vetur eða til ársins 1881.

Kennt var samtals í 22 vikur og urðu nemendur alls um 60 talsins. Af ýmsum ástæðum dofnaði yfir skólahaldinu áður en yfir lauk en úrslitum réðu að líkindum kuldarnir miklu eftir 1880.

Árið 1883 var starfsemi félagsins breytt og farið var að kaupa erlendar bækur sem gengu á milli félagsmanna. Hélst svo fram yfir 1890 en þá afhenti félagið Lestrarfélagi Mývetninga bókakost sinn.

Eftir að Þinghúsið var reist á Skútustöðum árið 1897 var haldinn þar unglingaskóli flesta vetur um og eftir aldamótin 1900. Með setningu fræðslulaganna 1907 var stofnað til farskóla í sveitinni og næstu fjóra áratugina var hann til skiptis á ýmsum bæjum í sveitinni. Árið 1947 var komið á föstu skólahaldi, fyrst í Baldursheimi en næstu árin í Reykjahlíð. Þá var skólinn til nokkurra ára í prestshúsinu á Skútustöðum og frá 1955 í Skjólbrekku. Um áramótin 1962 til ´63 fluttist skólinn í nýtt sérbyggt skólahúsnæði sem valinn hafði verið staður á landamerkjum Álftagerðis og Skútustaða.

Í skólanum var starfrækt heimavist til ársins 1977 þegar daglegur akstur hófst með alla nemendur í sveitinni. Vegna vaxandi þéttbýlis í Reykjahlíð var farið að kenna yngstu nemendum þar árið 1970 og haustið 1993 var tekið þar í notkun nýtt skólahúsnæði. Í fyrstu var kennt á báðum stöðunum en árið 1996 fluttist skólinn alfarið í Reykjahlíð (Tekið úr Árbók Ferðafélags Íslands 2006).

Frá 1993 hefur Tónlistarskóli Mývatnssveitar starfað í sama húsnæði og nemendur sækja tónlistartíma á skólatíma, þegar því verður við komið.

Árið 1996 lagaðist aðstaða nemenda til íþróttaiðkunar þegar íþróttahús var byggt við sundlaugina.

Reykjahlíðarskóli varð skóli á grænni grein í október 2006 og steig skrefin sjö að því að fá Grænfánann sem er viðurkenning Landverndar fyrir vinnu að umhverfismálum í skólanum. Grænfáninn var afhentur formlega í fyrsta sinn vorið 2008.

Árið 2006 fór skólinn að starfa eftir Olweusaráætluninni. Í dag er starfað í anda stefnunnar.

Árið 2007 var nafni skólans breytt úr „Grunnskóli Skútustaðahrepps“ í „Reykjahlíðarskóli“.

Í október 2008 var sparkvöllur formlega tekinn í notkun við skólann.

Árið 2011 byrjaði Reykjahlíðarskóli í byrjendalæsi, sem er kennsluaðferð ætluð yngri börnum. Kennsluaðferðin hefur verið mótuð og þróuð við Skólaþróunarsvið Háskólans á Akureyri. Eitt helsta markmið Byrjendalæsis er að börn nái góðum árangri í læsi sem allra fyrst á skólagöngu sinni.

Frá skólaárinu 2013 hefur Jákvæður agi verið á stefnuskrá Reykjahlíðarskóla og starfar hann í anda stefnunnar.

Í ársbyrjun 2014 hóf Reykjahlíðarskóli innleiðingu á Heilsueflandi grunnskóla.

Haustið 2016 var reist viðbygging norðan við skólann og Leikskólinn Ylur flutti alla starfsemi sína í Reykjahlíðarskóla.

Haustið 2017 var hjólabraut sett upp við skólann.
Sumarið 2018 var ærslabelg komið upp við skólann.
Haustið 2019 kom strandblaksvöllur í nágrenni skólans.
Haustið 2021 var strýtu og sviði komið upp á útikennslusvæði skólans.

Í gegnum árin hefur verið lögð rík áhersla á dans, söng og leiklist í skólastarfinu.

Gildi skólans

Gildi
Í Reykjahlíðarskóla starfa nemendur og starfsfólk saman undir einkunnarorðunum virðing, vellíðan, árangur. Skólastarfið byggir á þessum orðum sem fela í sér lífsleikni í sínum víðasta skilningi og leggur grunninn að skólastarfinu.

Virðing
Lögð er áhersla á virðingu í víðtækum skilningi: Sjálfsvirðingu nemenda, virðingu fyrir öðrum nemendum og starfsfólki, virðingu fyrir eigin eigum og annarra, virðingu fyrir fólki með mismunandi bakgrunn og skoðanir.
Virðingu fyrir náttúrunni: nemendur læri að meta og þekkja íslenska náttúru þannig að þeir kunni að njóta hennar og nýta á skynsamlegan hátt.
Virðing á að einkenna öll samskipti í Reykjahlíðarskóla.

Vellíðan
Lögð er áhersla á að öllum líði vel, skólinn sé öruggur staður þar sem unnið er að vellíðan nemenda í samvinnu við foreldra og aðra aðila.
Til að árangur skólastarfsins verði sem bestur er nauðsynlegt að nemendum líði vel andlega, líkamlega og félagslega. Forsenda þess að öllum líði vel í skólanum er að samskipti séu góð. Til að svo sé þarf að ríkja trúnaður, umburðalyndi og virðing fyrir verkum og skoðunum annarra, jafnt innan skólans sem utan.
Lögð er áhersla á gott viðmót í Reykjahlíðarskóla. Andrúmsloftið á að vera hvetjandi og hlúa að velferð einstaklinganna sem mynda skólasamfélagið.
Lögð er áhersla á samvinnu heimilis og skóla og virkt foreldrasamstarf. Einnig er lögð áhersla á tengsl við grenndarsamfélagið.
Skólahúsnæði og umhverfi hans verður að vera þannig að foreldrar þurfi ekki að óttast um öryggi barna sinna.
Nauðsynlegt er að forráðamenn hafi samband við skólann ef breytingar verða sem gætu haft áhrif á líðan nemenda.

Árangur
Áhersla er lögð á að nemendur nái sem bestum árangri í námi og leik.
Árangursríkt skólastarf byggir á góðri samvinnu og gagnkvæmu trausti heimilis og skóla.
Forráðamenn nemenda þekkja börnin sín best og því er nauðsynlegt að þeir hafi samband við umsjónarkennara og/eða skólastjóra þegar þeir telja þörf á.

Stefna Reykjahlíðarskóla

Reykjahlíðarskóli er grunnskóli þar sem grundvöllur starfsins er fræðsla og uppeldi sem byggir á Aðalnámskrá grunnskóla. Í lögum um grunnskóla frá 2008 segir að markmið grunnskóla, í samvinnu við heimilin, sé að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun. Grunnskólinn á að leitast við að haga störfum sínum í sem fyllstu samræmi við eðli og þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska, velferð og menntun hvers og eins. Skólinn skal stuðla að góðu samstarfi við heimilin með það að leiðarljósi að tryggja farsælt skólastarf. Starfshættir skólans eiga að mótast af umburðarlyndi, kærleika, kristilegri arfleifð íslenskrar menningar, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildum. Það er stefna skólans að öllum líði vel og að þeir nái árangri.