Keldan

Keldan

Keldan er úrræði í snemmtækri íhlutun fyrir fjölskyldur og skóla. Keldan er teymi þar sem fagaðilar sameinast til að veita aðstoð ef upp kemur vandi barns í daglegu umhverfi eða í skóla.
Teymið vinnur eftir Herning módelinu sem er danskt.
Markmiðið er að tryggja markvissan og snemmtækan stuðning við fjölskyldur þegar þess gerist þörf. En einnig að koma í veg fyrir að mál barna og ungmenna þróist þannig að erfitt og jafnvel ómögulegt sé að takast á við vandann.
Með nýju verklagi skapast sterk tenging og virkt samband milli fjölskyldu- og fræðslu- og frístundaþjónustu. Mál eru leyst með öflugri og virkari þátttöku starfsmanna við vinnslu mála frá upphafi, fjölbreyttum úrræðum beitt í samstarfi við foreldra, skóla, heilbrigðisþjónustu og eftir atvikum aðra þjónustuveitendur. Unnið er eins nálægt barninu og fjölskyldunni og mögulegt er og stuðningur í meira mæli veittur heim.
Foreldrar og skólar geta leitað til teymisins. Foreldrar þekkja barnið best og gegna því mikilvægu hlutverki við að leysa vanda sem tengist barni þeirra. Það er auðveldast að leysa mál ef tekið er höndum saman um það sem fyrst.
Alla jafna er leitast við að leysa þann vanda sem tengist barni í daglegu umhverfi þess þar sem nánustu starfsmenn, t.d. kennarar og aðrir starfsmenn skólans leggjast á eitt um að veita barninu nauðsynlegan stuðning. Ef vandinn kallar á að fleiri komi að málum til að styðja barnið eða fjölskylduna er leitað eftir heimild foreldra til að bera málið upp í teyminu.
Í Keldunni sitja fagaðilar eins og forstöðumaður í málefnum barna, ráðgjafi, skólasálfræðingur, skólahjúkrunarfræðingur og aðrir sérfræðingar eftir eðli hvers máls. Kennari barnsins mun vera með á fundi teymisins og aðstoða við að fylgja máli eftir. Teymið mun hafa viðveru í skólunum minnst mánaðarlega og oftar eftir þörfum.