Áhugasviðsdagar Reykjahlíðarskóla

Hugmyndin er sú að þessir dagar séu ekki endilega bundnir við skólahúsnæðið eða skólalóðina. Nemendur hafa t.d. farið að dorga með afa, pabba eða öðrum sem er tilbúinn að leyfa nemendum að fara með sér út á ís. Nemendur hafa gert heimildarmyndir um fjölskuldumeðlim og fylgt honum eftir yfir daginn, prjónað/saumað með ömmu, unnið á vinnuvél með afa og ýmislegt í þeim dúr. Þeim mun oftar sem þessir dagar eru haldnir þeim mun meira hugmyndaflug hafa nemendur til að líta út fyrir skólalóðina, það getur verið allur dagurinn eða partur úr degi.

Að þessu sinni bauðst nemendum 4. - 9. bekkjar að fara í fyrirtækjaheimsóknir og kynna sér starfssemi og störf í fyrirtækinu. Fjölmörg fyrirtæki sem við höfðum samband við tóku vel á móti nemendum og allir voru glaðir með sína heimsókn, lærðu margt nýtt og hlakka til að komast út á vinnumarkaðinn í sveitinni. Við hlökkum til að gera þetta oftar og yngri nemendur bíða spenntir eftir að fá að komast í slíkar heimsóknir.

Eldri nemendum bauðst einnig að fara á sushi-námskeið á Hótel Laxá sem tókst vel þótt ekki væru allir sammála um að sushi-ið bragðaðist sérlega vel. Þá voru í skólanum starfræktar fjórar smiðjur, smíðasmiðja, listasmiðja, bökunarsmiðja og tækni-/róbótasmiðja þar sem flestir fundu eitthvað við sitt hæfi.

Við hlökkum til að halda áfram að þróa áhugasviðsdagana okkar og ef einhver hefur hugmyndir, hæfileika eða áhuga sem hægt væri að nýta má gjarnan hafa samband við Hjördísi skólastjóra. Allar hugmyndir er hægt að vinna með.